19.6.2009 | 12:25
Á hálum ís
Góðan daginn, við erum á hálum ís þegar 400.000 eru orðin allt í einu há laun! Þarna eru breiðu bökin í samfélaginu sbr. t.d. kennarar sem eru með reynslu eða í stjórnunarstörfum. Þetta nær til allra skólastiga þ.e. leikskóla, grunnskóla og menntaskóla. Þessi hópur er ekki sá hópur sem fór illa með almannafé á tímum góðærisins en stóð þess í stað vaktina og hlúði að því dýrmætasta sem við eigum þ.e. börnunum og unglingunum. Þessi hópur mun gera það áfram. Þetta launabil á líka við háskólamenntaða heilbrigðisstarfsmenn og aðra háskólamenntaða ríkisstarfsmenn, það væri skammsýni að "öfundast" út í fólk með 400.000 kr! Ég samþykki alveg hátekjuskatt á kr. 700.000 en að vega launum á bilinu 400.000 er ekki gott. Það var sú tíð að fólk hló að þessum launum í góðærinu og sagði "ég hef ekki efni á þessum launum" og leitaði annað eða var í öðrum störfum sem gáfu mun betur. Nú er öldin önnur hjá mörgum.
kv. Páll Jakob, framhaldsskólakennari!
9000 ríkisstarfsmenn með yfir 400 þúsund í laun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála. Eina gulrótin sem ríkið hefur haft hingað til er launaöryggi, þar sem þeir hafa ekki getað verið samkeppnishæfir í launum við einkageirann. Þegar atvinnulífið tekur svo við sér aftur getur hið opinbera gleymt því að laða til sín hæft og vel menntað starfsfólk. Og hrokinn í Jóhönnu um að enginn megi vera með hærri laun en hún er með ólíkindum.
Gunnar (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 13:07
Ríkið rekur að því er ég best veit enga leik- eða grunnskóla og því eru slíkir kennarar væntanlega ekki inni í þessum tölum. Hvað varðar 400 þúsund töluna að þá verður að skoða það í samhengi við verkefnið sem er framundan. Það stendur til að draga saman ríkisútgjöldin um tugi prósenta og þá er eðlilegt að horfa til þess þriðjungs af ríkisstarfsmönnum sem hafa hæst launin, enda enginn sparnaður í því fyrir ríkið sem heild að ná fram hagræðingu þar sem tekst að draga úr láglaunastörfum enda lítið hærri en atvinnuleysisbæturnar.
Héðinn Björnsson, 19.6.2009 kl. 13:08
Þetta eru há laun skv. nýrri skilgreiningu Ríkisins. Aðminnstakosti meðalhá.
Vek athygli á að talað hefur verið um að fæðingarorlofsþak verði sett í 350.000, þannig að lýðurinn þarf ekki hærri úthlutun en svo;
Nú kynni einhver að segja að þetta dygði ekki fyrir afborgunum húsnæðislána og sæmilegu uppihaldi (50% fjölskyldna með bílalán skv. SÍ), en því er til að svara að augljóslega gerir ríkið áætlun um lækkun fasteignaverðs og með því móti lækkar afborgunin hjá þeim sem bíða lækkunina af sér. Bílalán eru rugl og hafa alltaf verið; neyslulán í ákveðnum búningi sem örfáir virðast bera skynbragð á.
Vesalings árgangarnir sem komu inn á fasteignamarkaðinn 2005-2008. Ég reikna með 25% gjaldþrotum þarna, en það er bara mitt mat.
En í stuttu máli, skv. nýrri tilskipun Alþingis þá eru há laun 400.000. Sem er í þokkalegu samræmi við eldri hátekjuskatt (sem var síðast virkur 2003 ef ég man rétt) en þar miðuðust há laun við 333.333.
Nettóafleiðing af þessum sköttum verður minni neysla sem þýða minni neysluskattar (vsk.). Í raun er þetta þó skárri skattur m.t.t. barnafjölskyldna og almúgans, þar sem aukning neysluskatta myndi fara beint inn í verðbólgu og þannig hækka öll lán almennings.
kv. wisser
Höfundur ókunnur, 19.6.2009 kl. 13:14
En hvað eru 400 þúsund í heildarlaun á mánuði í dag? Útborgað eru þetta kannski um 260-270 þúsund og margt af þessu fólki er með dýrt háskólanám að baki plús það að borga af íbúð og halda uppi fjölskyldu. Þegar afborganir af íbúð hafa hækkað um tugi þúsunda og matarreikningurinn, bílareksturskostnaðurinn, tryggingarnar o.fl. sömuleiðis, þá er búið að saxast ansi mikið á þessar 260-270 þúsund krónur. Þetta fólk er ekki að lifa í vellystingum, ég veit það, því ég er í þessum hópi. Fólk eins og ég var ekki að kaupa sér jeppa á erlendum lánum, né kaupa sér flatskjá í hvert herbergi eða marmaraflísar á baðið. Ég og mín fjölskylda (konan í láglaunastarfi) rétt skrimtum, þrátt fyrir mín "ofurlaun", og ef á að hrófla við mínum launum, lendi ég í greiðsluerfiðleikum með tilheyrandi veseni fyrir kröfuhafa (ríkið), gæti misst íbúðina og neyðst til að flytja inn á foreldra mína. Ef þetta verður gert þá íhuga ég alvarlega að flytja úr landi með mína menntun og það sama eru ansi margir í minni stöðu líka að hugsa. Og já, ef ég fæ lægri laun, kaupi ég minna, sem skilar sér í minni virðisaukaskatti og vörugjöldum fyrir ríkið, og sömuleiðis ef viðskipti minnka við verslanir, þá skila þær minni skatttekjum auk þess sem starfsfólk gæti misst vinnuna og þurft að fara á atvinnuleysisbætur.
Þessi ríkisstjórn skoðar aldrei hver jaðaráhrifin eru af sínum aðgerðum. Þetta er svona eins og að ætla að skjóta flugu með haglabyssu og einblína á að flugan muni drepast en hugsa ekki um skaðann sem öll höglin valda.
Muddur, 19.6.2009 kl. 13:23
Svona sem svar við athugasemd hér fyrr þá veit ég að leik- og grunnskólakennarar eru ekki ríkistarfsmenn en sveitafélögunum er hætt að fylgja fordæmi ríkisins.
kv. Páll
Páll Jakob Malmberg, 19.6.2009 kl. 13:44
meira vit í að skoða þessi laun en að vera að óskapnast yfir að atvinnuleysisbætur séu komnar upp í 150 þús. þær eru samt aldrei 150 þús því það fer eftir dagafjölda í mánuðinum , og ef t.d það eru margir rauðir dagar í mánuðinum þá minka bæturnar, svo eru tekir skattar af .
GunniS, 19.6.2009 kl. 14:14
Páll:
Ég er algjörlega sammála þér og þetta er mjög góð færsla hjá þér.
Vissulega erum að við að horfa upp á 10% atvinnuleysi en að setja hér á eitthvað sovéskt kerfi, þar sem læknarnir verða á sömu launum og verkamaðurinn er tilraun sem mistókst!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.6.2009 kl. 14:36
Ég hef verið óbreyttur ríkisstarfsmaður í 11 ár og 400.000 kr þætti mér æði en það er rúmlega 100% hærra en ég hef í dag. Ég búin með 2 ár í háskóla, nám sem nýtist í starfi en það hækkar launin mín ekki nema rétt upp fyrir 200.000. Yfirmaður minn hefur ekki einu sinni svo há laun samt með margra ára háskólamenntun á bakinu. Ég tel að fólk sem er ríkisstarfsmenn og starfar ekki hjá fínum og flottum ráðuneytum eða öðrum stofnunum sem eru nær ríkisstjórninni hafi almennt ekki 400.000 kr í laun nema með mikilli yfirvinnu, sem er bönnuð eins og er.
Heiða (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 17:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.